ALGENGAR SPURNINGAR OG SVÖR

HVAÐ ER LÍÐAN Í COVID-19

Líðan í Covid-19 er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og sóttvarnarlæknis sem miðar að því að auka þekkingu á áhrifum faraldursins á líðan og lífsstíl landsmanna. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni á þessu sviði og er opin öllum einstaklingum 18 ára og eldri sem hafa rafræn skilríki.

HVERNIG FER TENGING HEILBRIGÐISGAGNA FRAM?

Samtenging gagna rannsóknarinnar við heilbrigðisgagnagrunna og lífsýnasöfn er framkvæmd eftir ströngum skilyrðum Vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Slíkar samtengingar verða einungis framkvæmdar í vísindalegum tilgangi en enginn þeirra vísindamanna sem starfa við rannsóknina hafa aðgang að persónuupplýsingum einstaklinga. Heilbrigðisstarfsfólk mun heldur ekki undir nokkrum kringumstæðum hafa aðgang að svörum sem gefin hafa verið í rannsókninni. Þau gögn eru varðveitt á dulkóðuðu formi á öruggu svæði sem enginn hefur aðgang að nema gagnagrunnstjórar rannsóknarinnar.

ER HÆGT AÐ TENGJA MIG OG MÍNAR PERSÓNUUPPLÝSINGAR VIÐ SVÖRIN MÍN?

Nei. Við óskum eftir samþykki þínu til að tengja svörin þín við heilbrigðisgagnagrunna og lífsýnasöfn hér á landi áður en þátttaka þín hefst. Slík tenging er gerð eftir ströngustu fyrirmælum um persónuvernd og að lokinni samtengingu eru gögnin dulkóðuð og innihalda þannig engar persónugreinanlegar upplýsingar.

 

Við úrvinnslu gagnanna eru persónuupplýsingar (nafn, kt, símanúmer, tölvupóstfang o.s.frv) fjarlægðar úr gagnasettinu þannig að rannsakendur sem eru að vinna með gögnin geta séð svörin (sem eru á númeraformi) en ekki rakið þau til einstakra þátttakenda.

 

Þessir ferlar og rannsóknin í heild sinni hefur verið samþykkt af Vísindasiðanefnd og Persónuvernd.

HVER ER TILGANGUR RANNSÓKNARINNAR?

Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:

 

  • Hver eru áhrif COVID-19 faraldursins á einkenni streitu, sálræna líðan og lífsstíl landsmanna?
  • Tengist saga um sjúkdóma og aðra áhættuþætti, staðfest COVID-19 smit, sóttkví, einangrun eða breytingar á efnahag og daglegu lífi aukinni streitu, slakari líðan og lífsstíl?
  • Hafa sterk streitu- og geðræn einkenni á þessum óvissutímum faraldursins viðtækari áhrif á heilsufar til lengri tíma?

 

Verkefnið miðar einnig að því að miðla almennum upplýsingum til þátttakenda og allra landsmanna um geðrækt og hvert hægt er að leita til að fá stuðning og geðheilbrigðisþjónustu á þessum óvissutímum.

HVERNIG TEK ÉG ÞÁTT Í RANNSÓKNINNI?

Þú skráir þig til þátttöku hér á vefsíðunni með Íslykli eða rafrænum skilríkjum og staðfestir þar á eftir þátttöku þína á rafrænan hátt. Í kjölfarið gefur þú upp netfang og farsímanúmer en þannig sendum við þér krækju á rafrænan spurningalista. Þú getur síðan valið um að svara spurningunum í tölvu eða síma.

Þátttaka þín í rannsókninni er algjörlega valfrjáls; þú getur valið að sleppa ákveðnum hluta rannsóknarinnar eða að hætta þátttöku alfarið hvenær sem er í ferlinu án frekari skýringa.

HVAÐ EF ÉG MAN EKKI HVORT ÉG HAFI TEKIÐ ÞÁTT Í FYRRI RANNSÓKNINNI?

Þegar þú smellir á taka þátt hér þá færðu upp síðu sem leiðir þig áfram á innskráningarsíðuna og í framhaldinu færðu svo þann spurningalista sem á við þitt netfang. Ef þú tókst þátt í fyrri spurningalista færðu eftirfylgdarrannsóknina og ef þú hefur ekki tekið þátt er þér vísað á fyrsta hluta rannsóknarinnar.

HVERJIR STANDA Á BAK VIÐ RANNSÓKNINA?

Ábyrgðamaður Líðan í Covid-19 rannsóknarinnar er Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknin er unnin í samstarfi ýmissa vísindamanna innan Háskóla Íslands og Embættis landlæknis (sjá yfirlit yfir rannsakendur hér).

HVAÐ FELLST Í ÞÁTTTÖKU MINNI OG HVAÐ ÞARF ÉG AÐ GERA?

Þátttaka í rannsókninni felst í því að svara spurningalista á rafrænu formi. Þú getur svarað spurningunum í snjallsímanum þínum eða í tölvu.

 

Með því að haka í upplýst samþykki gefur þú einnig leyfi til að svörin þín séu varðveitt í gagnagrunni rannsóknarinnar til frambúðar.

 

Í framtíðinni stendur líka til að tengja svörin við aðra heilbrigðisgagnagrunna og lífsýnasöfnað fengnu leyfi Vísindasiðanefndar.

 

Að lokum þá felst þátttaka þín í að mögulega verður haft samband við þig aftur vegna sértækra rannsóknarverkefna eða reglubundinna eftirfylgdarrannsókna, sem hægt verður að taka afstöðu til á þeim tímapunkti.

HVAÐ EF ÉG VIL HÆTTA VIÐ ÞÁTTTÖKU?

Þátttaka þín í rannsókninni er algjörlega valfrjáls og þú getur hætt þátttöku hvenær sem er í ferlinu, án frekari skýringa, með því að senda okkur póst á netfangið lidanicovid@hi.is eða hringja í síma 525-5500.

BÝÐST MÉR EINHVER AÐSTOÐ EÐA ÚRRÆÐI EF ÉG TEK ÞÁTT Í RANNSÓKNINNI?

Ef þú ert að glíma við erfiðar tilfinningar eða annan heilsubrest þá má finna upplýsingar um hvert hægt er að leita til að fá ráðgjöf og/eða stuðning hér.

HVAÐ VERÐUR GERT VIÐ NIÐURSTÖÐURNAR?

Væntingar standa til þess að rannsóknin muni gefa skýr svör um áhrif COVID-19 faraldursins á einkenni streitu, sálræna líðan og lífsstíl. Slík þekking er mikilvæg yfirvöldum við skipulag heilbrigðisþjónustu og almannavarna á tímum samfélagslegra áfalla á borð við heimsfaraldurinn COVID-19. 

Niðurstöður verða einnig kynntar á fréttamiðlum og í vísindagreinum eftir að úrvinnslu er lokið.