EFTIRFYLGDARRANNSÓKN

Líðan þjóðar á tímum COVID-19

Eftirfylgdarrannsókn

 

vísindarannsókn á vegum

Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og sóttvarnalæknis.

Fyrsti fasi rannsóknarinnar hófst í apríl 2020 og hafa nú alls um 23.000 manns tekið þátt og svarað fyrsta spurningalista rannsóknarinnar. Tölfræðileg úrvinnsla á þessum fyrsta hluta stendur nú yfir og verða niðurstöður kynntar fyrir almenningi á næstu mánuðum.

 

Þar sem faraldurinn er nú aftur í fullum gangi með tilheyrandi áhrifum á íslenskt samfélag og mögulega heilsufar fólks, teljum við mikilvægt að halda rannsókninni áfram og bjóðum nú öllum þátttakendum að svara nýjum spurningalista.

 

Þessi eftirfylgdarrannsókn hefur það að markmiði að kortleggja mögulegar breytingar á líðan, högum og heilsufari þátttakenda rannsóknarinnar.

FRAMKVÆMD

Þátttaka í eftirfylgdarrannsókninni felur í sér:

Svörun rafræns spurningalista sem tekur um 15-20 mínútur að svara. Spurningarnar snúa að breytingum á líðan, högum og heilsufari þátttakenda rannsóknarinnar.

Þú munt síðar fá boð um eftirfylgdarrannsóknir og/eða mögulegar undirrannsóknir sem samþykktar verða af Vísindasiðanefnd og Persónuvernd. Þú getur tekið afstöðu til þeirrar þátttöku síðar þegar slíkt boð berst.

Samtenging við aðrar heilbrigðisupplýsingar og lífsýnasöfn.

Til að skilja til hlítar hvort faraldurinn og viðbrögð við honum hafi víðtækari áhrif á heilsufar þitt til lengri tíma óskum við einnig eftir víðtæku samþykki þínu til að tengja upplýsingar spurningalistans við heilbrigðisgagnagrunna, rannsóknir og lífsýnasöfn á heilbrigðissviði, en eingöngu að að fengnu viðbótarleyfi Vísindasiðanefndar.

Hvernig skrái ég mig í rannsóknina?

Þú skráir þig til þátttöku hér á vefsíðunni með Íslykli eða rafrænum skilríkjum og staðfestir þar á eftir þátttöku þína á rafrænan hátt. Í kjölfarið gefur þú upp netfang og farsímanúmer en þannig sendum við þér krækju á rafrænan spurningalista. Þú getur síðan valið um að svara spurningunum í tölvu eða síma.

Þátttaka þín í rannsókninni er algjörlega valfrjáls; þú getur valið að sleppa ákveðnum hluta rannsóknarinnar eða að hætta þátttöku alfarið hvenær sem er í ferlinu án frekari skýringa.

Ef þú hefur spurningar um rétt þinn sem þátttakandi í vísindarannsókninni eða vilt hætta þátttöku getur þú sent okkur póst á netfangið lidanicovid@hi.is. Einnig er þér velkomið að hafa samband við Vísindasiðanefnd í síma: 551 7100 eða tölvupóstfang: vsn@vsn.is.

 • SVÖRUN

  Rannsóknin hefst með svörun rafræns spurningalista. Til þess að geta tekið þátt þarft þú að hafa Íslykil eða rafræn skilríki og vera eldri en 18 ára.

 • BOÐ

  Þátttakendur mega eiga von á boði í eftirfylgdarrannsóknir og/eða mögulegar undirrannsóknir. Þú getur tekið afstöðu til þeirrar þátttöku síðar.

 • SAMTENGING

  Tenging verður gerð við aðrar heilbrigðisupplýsingar og lífssýnasöfn í samræmi við heimild Vísindasiðanefndar, Persónunefndar og samþykki þátttakenda.

 • NIÐURSTÖÐUR

  Niðurstöður rannsóknarinnar verða gefnar út í ritrýndum greinum í virtustu vísindatímaritum heims og munu upplýsingar úr þeim birtast hér á síðunni, á samfélagsmiðlum rannsóknarinnar og í fjölmiðlum.

 • ÞEKKING

  Væntingar standa til þess að niðurstöður rannsóknarinnar verði síðar hægt að nota til forvarna og meðferðar við alvarlegum heilsufarsáhrifum áfalla.

ERU UPPLÝSINGARNAR UM MIG ÖRUGGAR?

Upplýsingarnar sem þú veitir gegnum spurningalistann eru varðveittar á dulkóðuðu formi í gagnaverum hugbúnaðarfyrirtækisins MEDEI ApS og við Reiknistofnun Háskóla Íslands.  Gagnaverin eru aðgangsstýrð þannig að enginn óviðkomandi kemst í þessar upplýsingar heldur einungis ábyrgðarmaður og gagnagrunnsstjórar rannsóknarinnar. Upplýsingarnar um þig verða einungis notaðar í ofangreinda vísindarannsókn en ekki í neinum öðrum tilgangi, nema í mögulegum undirrannsóknum sem verða þá gerðar með leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Vísindamenn sem vinna með gögnin fá upplýsingar á dulkóðuðu formi og geta því ekki rakið upplýsingarnar til þín. Þessir ferlar og rannsóknin í heild sinni hefur verið samþykkt af Vísindasiðanefnd og Persónuvernd.

ÁBYRGÐARAÐILAR RANNSÓKNARINNAR

Hverjir standa að rannsókninni?
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar er Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Rannsóknin er unnin í samstarfi ýmissa vísindamanna innan Háskóla Íslands og Embættis landlæknis.

Hvar get ég fengið frekari upplýsingar?
Ef þú hefur spurningar um rannsóknina eða vilt fá frekari upplýsingar um þátttöku þína, þá getur þú sent póst á netfangið: lidanicovid@hi.is

Rannsakendur:

 

Verkefnið hefur hlotið styrk frá Ríkisstjórn Íslands og er styrkt af SMART-TRIAL