FORDÆMALAUSIR TÍMAR OG ÁHRIF Á HEILSU

FORDÆMALAUSIR TÍMAR OG ÁHRIF Á HEILSU

Arna Hauksdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og einn forsvarsmanna Líðan þjóðar á tímum COVID-19 ræddi við Önnu Marsibil Clausen og Kristján Guðjónsson um áhrif áfalla á heilsu í Lestinni á RÚV þann 21. apríl 2020. Viðtalið hefst á 35:50 mínútu.

Hér má lesa hluta úr viðtalinu:

Hvernig hafa áföll áhrif á heilsu samfélaga?

Varðandi þessi samfélagslegu áföll þá getur það verið mjög mismunandi eftir því hvers konar áföll það eru. Þau sem hafa verið mikið rannsökuð, og við höfum sem betur fer ekki upplifað hér, eins og stríð og hryðjuverk hafa hræðileg áhrif. Það sem við höfum séð hér er efnahagshrunið og svo náttúruhamfarir sem við virðumst upplifa reglulega og eru lík mis alvarleg. Það sem við höfum séð í gegnum tíðina er að fyrstu viðbrögð eru oft ótti sem getur gripið um sig en svo kemur líka einhvers konar samheldni og jákvæðir þættir og það er kannski helst þar sem sést helst munur eftir tegundum áfalla.

Ef við tökum sem dæmi efnahagshrunið að þá kom fljótt mikil reiði þannig að samheldnin minnkaði mjög hratt og sprakk upp með mótmælunum sem svo endaði með að ríkisstjórnin sprakk í janúar. Það er svona mín tilfinning að það hafi tekið langan tíma að lægja þær öldur af því við tók mikill pólitískur órói sem stóð yfir í mörg ár. Það er kannski sér á báti þar sem kemur upp svona reiði gagnvart stjórnvöldum og gagnvart einhverjum aðilum sem hefðu geta staðið sig betur í einhverju.

Svo eins og við sjáum eftir náttúruhamfarir þá er það öðruvísi hvað það varðar að samheldnin í samfélaginu að hún heldur áfram. Við höfum ekki séð neina reiði gagnvart stjórnvöldum eða yfirvöldum ekki nýverið en vissulega kemur til lengri tíma oft einhvers konar reiði af því það tekst ekki að fá fram þær bætur, skaðabætur, sem fólk er að vonast eftir vegna skemmda osfrv. Ef við lítum til Eyjafjallagossins sem dæmi að þá sjáum við ákveðið sammerkt þá og núna að það var gott upplýsingaflæði og okkar sérfræðingar þá, Eldfjallasérfræðingarnir, voru mikið í fréttum og voru mjög duglegir að upplýsa almenning og ekki síður íbúa á svæðinu um hvað var í gangi. Þeir héldu reglulega upplýsingafundi á svæðinu og þar virtist fólk almennt ánægt með hvernig var brugðist við og þjóðin stóð svona saman í því verkefni.

Ef við svo komum núna í nútímann að þá er þetta augljóst samfélagslegt áfall sem við öll erum að upplifa en það er kannski líka sérstakt núna að maður finnur þessa samheldni og sem er ekki síst því að þakka að við berum mikið traust til heilbrigðisyfirvalda.

Þessar tilfinningar sem fólk upplifir núna, þær hafa þá í raun hrein og bein áhrif á heilsu fólks?

Já þær gera það. Ég held það sé samt erfitt að setja einhver svona almenn áhrif yfir þetta allt saman. Við rannsökuðum til dæmis heilsu eftir Efnahagshrunið og við sáum ýmis alvarleg heilsufarsútkomur eftir hrun borið saman við fyrir hrun. Við sáum aukna streitu ári eftir hrun hjá konum en ekki körlum. Við sáum t.d. líka aukna tíðni léttburafæðinga en það síðan sem betur fer minnkaði aftur. Við sáum líka aukningu í komur á bráðamóttöku vegna aukinna hjartaáfalla og hjartaeinkenna strax eftir hrun, en aftur bara meðal kvenna en ekki meðal karla. Við höfum líka skoðað svona alvarlegar útkomur eins og sjálfsvígstilraunir og sjálfsskaða, en þar sáum við ekki aukningu en hins vegar sáum við aukningu þar rétt fyrir hrun, þ.e. í góðærinu. En það var bara meðal karla, ekki meðal kvenna. Þannig að hrunið virtist hafa áhrif á heilsu en ekki til langs tíma, amk ekki það sem við sáum.

Hlustaðu á viðtalið í heild sinni hér, en eins og áður segir hefst það á mínútu 35:50

TAKTU ÞÁTT Í LÍÐAN Í COVID-19 og hjálpaðu til við að auka þekkingu til framtíðar.