SAMFÉLAGIÐ – COVID-19 ER SAMFÉLAGSLEGT ÁFALL

áfall

SAMFÉLAGIÐ – COVID-19 ER SAMFÉLAGSLEGT ÁFALL

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessir við Læknadeild Háskóla Íslands og einn forsvarsmanna rannsóknarinnar Líðan þjóðar á tímum COVID-19 ræðir hér líðan í COVID faraldrinum. Viðtalið hefst á mínútu 2:40.

Hlustaðu á allt viðtalið sem fór fram í útvarpsþættinum Samfélagið 27. apríl 2020

 Rannsóknin er opin öllum 18 ára og eldri sem hafa rafræn skilríki eða íslykil og er öllum opin. Þú getur tekið þátt hér.

Við höfum verið að vinna mjög mikið af rannsóknum undanfarið. Við stökkvum alltaf af stað þegar verða samfélagsleg áföll, þegar verða náttúruhamfarir, þegar verður hér efnahagshrun. Við höfum verið að skoða áhrif áfalla á heilsufar, í víðari merkingu þess orðs, og sjáum að það eru töluverð áhrif. Þetta eru ótrúlegar aðstæður sem við höfum verið í hér og verðum kannski eitthvað áfram. Þetta hefur svo mikil áhrif á svo margar hliðar tilverunnar. Bæði efnahagsleg, eins og við erum þegar farin að sjá núna, en líka á viðbrögð okkar. Við erum búin að vera óttaslegin og hrædd við smit. Hér eru um 1800 manns sem hafa smitast og fjölskyldur þeirra kannski lifað í ótta um hvernig sjúkdómurinn myndi þróast og að fleiri myndu smitast. Við viljum gjarnan heyra reynslu þessa fólks.

Það er mjög mikilvægt að skilja hvers konar áhrif svona áfall, samfélagslegt áfall hefur á þjóðina. Markmiðið er þá að skilja það, bæði hvaða áhrif þetta hafði á líðan okkar og heilsufar en líka til framtíðar að athuga hvort það verði einhverjar afleiðingar til lengri tíma.

Hvað verður rannsóknin opin lengi?

Við erum að stefna á að hafa hana opna út maí og viljum taka stöðuna eins og hún er í núna í faraldrinum.

Þetta eru bara 15-20 mínútur sem fólk gefur af sínum tíma til þess að svara spurningum um sinn lífsstíl og upplifun af faraldrinum. Hvort einhver í fjölskyldunni hafi veikst, hvort fólk hafi verið hrætt um smit til dæmis vegna undirliggjandi áhættuþátta sem geta legið innan fjölskyldna.

Síðan mun við leita aftur til þessa fólks kannski eftir hálft til heilt ár til að taka stöðuna á því síðar.

Getur það ekki haft gildi að vita af hverju lífstíll og viðhorf breyttist?

Algjörlega, við byggjum okkar almannavarnir á vísindum og til þess að besta þær þá verðum við að skilja hvernig við höfum brugðist við í því sem á okkur dynur. Það er nákvæmlega það sem við viljum gera núna. Við vitum að það er mikil þrautseigja, við aðlögum okkur að aðstæðum, við höfum ólíkar aðferðir til þess að halda heilsu og góðri líðan. Við viljum líka skoða hvað fólk hefur notað til þess að koma sér í gegnum þessar breyttu lífsaðstæður.

Hafa þessar upplýsingar eitthvað spádómsgildi í framtíðinni? Getur þetta gefið okkur vísbendingar um hegðun og viðhorf í faröldrum framtíðarinnar?

Það er algjörlega inni í dæminu að þetta geti haft áhrif til lengri tíma og þá viljum við hafa þá þekkingu til þess að næst þegar eitthvað svona dynur á þá viljum við gjarnan geta tekið tillit til þessara þátta og jafnvel hvatt til þátta sem eru góðir og vonandi dregið úr þáttum sem eru óæskilegir.