Við erum að komast út úr þessari bylgju

Við erum að komast út úr þessari bylgju

Fréttin birtist á ruv.is 14.12.2020

Smitstuðullinn, hversu marga hver og einn smitar, er nú lægri en 0,6. Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna og embættis landlæknis í morgun. Hann sagði ljóst að við værum að komast út úr þessari bylgju faraldursins. Á fundinum kynnti Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, frumniðurstöður rannsóknarinnar Líðan þjóðar á tímum COVID. Þær sýna að vísbendingar eru um neikvæð áhrif faraldursins á geðheilsu fólks.

Þórólfur sagði að undirbúningur fyrir bólusetningar væri nú í fullum gangi. „En í dag er hins vegar ekki vitað nákvæmlega hvenær fyrsta sendingin verður né hversu marga skammta við fáum. Á næstunni munum við greina betur frá þeim bóluefnum sem okkur standa til boða og hvernig bólusetningunni verður háttað og hverjir eru kostir og gallar bólusetninganna,“ sagði Þórólfur.

Unnur sagði að niðurstöðurnar úr rannsókninni ættu fyrst og fremst við líðan fólks í fyrstu bylgju faraldursins en þar var lögð áhersla á geðheilsu þeirra sem höfðu komist í orðið fyrir einhvers konar snertingu við faraldurinn. 

Meiri tíðni þunglyndis hjá þeim sem hafa fengið COVID

„Einstaklingar sem greindust með COVID-19 voru með hærri tíðni einkenna þunglyndis og áfallastreitu í bataferlinu en jafnaldrar þeirra, sérstaklega eftir mikil veikindi,“ sagði Unnur.

Hún sagði að þessara einkenna gætti mest hjá þeim sem hefðu verið rúmliggjandi í viku eða lengur. Þeir, sem hafa orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu í faraldrinum, sýna einnig hærri tíðni þunglyndis. Þá var fólk sem átti ættingja sem höfðu greinst með COVID-19 með meiri einkenni þunglyndis en aðrir. 

„Góðu fréttirnar eru að heilbrigðisstarfsfók var ekki með aukna tíðni sálrænna einkenna,“ sagði Unnur og sagði að þetta ætti bæði við um fólk í framlínustörfum og við aðra heilbrigðisþjónustu.

Áhyggjuefni hversu margir komu saman

Þórólfur sagði það áhyggjuefni hversu  margir hefðu komið saman um helgina. Svo virtist sem sóttvarnareglur hefði ekki verið virtar. „Auðvitað hefur maður áhyggjur af þessum fjölda sem sást á Laugaveginum en ég vona að þetta sé ekki vísbending um að svona verði áfram fram að jólum,“ sagði Þórólfur.


Stöndum saman og tökum öll þátt á: www.lidanicovid.is

Vísindi eru almannavarnir! 

Embætti landlæknis

Háskóli Íslands