24 nóv 140 milljóna króna styrkur til rannsókna á áhrifum COVID-19
Fréttin birtist á heimasíðu Háskóla Íslands þann 24.11.2022
Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands er aðili að COVIDMENT-samstarfinu en það er rannsóknasamstarf leiðandi vísindahópa í sex löndum í Norður-Evrópu sem snýr að langtímaáhrifum heimsfaraldurs COVID-19 á lýðheilsu, með áherslu á geðheilbrigði. Verkefnið hlaut styrk frá NordForsk 2021-22 og góður árangur samstarfsins, m.a. niðurstöður sem birtar voru sl. vor (Ingibjörg Magnúsdóttir et al., Lancet Public Health 2022) hefur nú skilað sér í nýjum styrk til þriggja ára. Samanlagt hefur verkefnið því fengið hátt í 300 milljónir króna í styrki.
Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, leiðir COVIDMENT-samstarfið og segir nýja styrkinn mikilvægan í því að vinna áfram að rannsóknum sem á endanum draga upp mynd af heildaráhrifum og afleiðingum heimsfaraldursins á heilsu fólks.
„COVIDMENT-samstarfið hefur þróað rannsóknarinnviði sem eru einstakir á heimsvísu og auka skilning okkar á áhrifum heimsfaraldursins á lýðheilsu,“ segir Unnar Anna. „Styrkur sem þessi gerir okkur kleift að halda áfram að svara mikilvægum spurningum um áhrif faraldursins og mismunandi aðgerða stjórnvalda á heilsufar í mjög víðum skilningi. Í þessu samhengi er samanburður milli landa innan COVIDMENT-samstarfsins afar mikilvægur.“
Styrkurinn sem nú fékkst er upp á tæplega 10 milljónir norskra króna (140 milljónir IKR). Hann er til þriggja ára og skiptist á fjóra rannsóknarhópa.
„NordForsk-styrkurinn veitir okkur grunnfjármögunun til áframhaldandi samstarfs en til að hámarka árangurinn, m.a. til að skilja langtímaeinkenni eftir COVID-19 er hver rannsóknarhópur COVIDMENT áfram háður rannsóknarstyrkjum frá styrkveitendum hvers lands,“ segir Unnur.
Markmið COVIDMENT rannsóknarsamstarfsins er að varpa ljósi á það hvernig ólík viðbrögð stjórnvalda á Norðurlöndunum til að draga úr útbreiðslu veirunnar höfðu áhrif á lýðheilsu, einkum geðheilsu fólks, á ólíkum svæðum. Hér eru til skoðunar bæði þeir hópar sem urðu fyrir beinum áhrifum af COVID-19, þ.e. þeir sem fengu sjúkdóminn, og eins þeir sem urðu fyrir óbeinum áhrifum t.d. vegna samkomutakmarkana, tekjuskerðingar eða fyrirskipaðra sóttkvía til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins.
„Styrkur sem þessi gerir okkur kleift að halda áfram að svara mikilvægum spurningum um áhrif faraldursins og mismunandi aðgerða stjórnvalda á heilsufar í mjög víðum skilningi. Í þessu samhengi er samanburður milli landa innan COVIDMENT-samstarfsins afar mikilvægur,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild, sem leiðir COVIDMENT-samstarfið.