Andleg heilsa í kófinu virðist sveiflast með smittölum

Andleg heilsa í kófinu virðist sveiflast með smittölum

Vísbendingar eru um að andleg líðan fólks í kórónuveirufaraldrinum sveiflist að einhverju leyti með nýgengi COVID-19-smita. Þetta sýna fyrstu niðurstöður COVIDMENT-rannóknarverkefnisins sem nær til nærri 400 þúsund manns í sex löndum og er unnið undir forystu vísindamanna við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Sagt er frá niðurstöðunum í grein í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins International Journal of Epidemiology sem kom út í vikunni.

Að COVIDMENT-rannsóknarverkefninu koma vísindamenn frá háskólum og stofnunum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Eistlandi og Skotlandi auk Íslands en verkefnið leiðir Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Háskóla Íslands. Helsta markmið rannsóknasamstarfsins er að auka þekkingu á langvarandi áhrifum COVID-19-heimsfaraldursins á geðheilsu almennings og sérstakra áhættuhópa. Verkefnið hefur hlotið nærri 200 milljóna króna styrk frá NordForsk, stofnun sem hefur umsjón með rannsóknasamstarfi á Norðurlöndum.

Rannsóknir hópsins byggjast bæði á viðamiklum könnunum meðal almennings og lífsýnabönkum, alls sjö svokölluðum ferilrannsóknum í löndunum sex. Þar á meðal er hin umfangsmikla rannsókn Líðan þjóðar á tímum COVID-19 sem vísindamenn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum ýttu af stað í upphafi faraldursins hér á landi. 

Frá mars 2020 til ágúst 2021 hafa samtals tæplega 400 þúsund manns tekið þátt í ferilrannsóknunum sjö og gögnin úr þeim ásamt heilbrigðisgögnum í hverju landi verða nýtt til að auka þekkingu á langvarandi áhrifum COVID-19 á geðheilsu. 

Fyrstu niðurstöður rannsóknarhópsins birtust í International Journal of Epidemiology um helgina. Þær sýna m.a. að tíðni þunglyndiseinkenna var afar ólík milli rannsóknanna í löndunum sjö en almennt reyndist hún hæst hjá ungu fólki og meðal kvenna. Þá sýndu niðurstöðurnar að tíðni þunglyndiseinkenna var mest þegar meðalfjöldi staðfestra vikulegra COVID-19-tilfella á hverja 100.000 einstaklinga var 30, eða ríflega 60% meiri en þegar meðalfjöldi staðfestra vikulega COVID-19 tilfella var 0. Niðurstöðurnar benda því til þess að andleg líðan almennings hafi að einhverju leyti fylgni við nýgengi COVID-19-smita.

Rannsóknahópurinn vinnur núna að fleiri spennandi verkefnum, t.d. um möguleg langtímaáhrif COVID-19 á geðheilsu, hugræn áhrif vegna COVID-19, áhrif COVID-19 á geðheilsu heilbrigðisstarfsfólks, nánustu aðstandendur smitaðra og þeirra sem hafa upplifað tekjumissi vegna faraldursins, áhrif lögboðinna samkomutakmarkana, viðhorf gagnvart bólusetningu gegn COVID-19 o.fl. „Þessar niðurstöður eru mikilvægar því þær auka þekkingu á langtímaáhrifum COVID-19 á geðheilsu almennings en einnig geta þær nýst í viðbrögðum við mögulegum framtíðarfaröldrum,“ segir Anna Bára Unnarsdóttir, verkefnisstjóri og doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum og fyrsti höfundur vísindagreinarinnar.

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði, leiðir COVIDMENT-rannsóknarverkefnið og Anna Bára Unnarsdóttir, verkefnisstjóri og doktorsnemi við Miðstöð í lýðheilsuvísindum, er fyrsti höfundur vísindagreinarinnar í International Journal of Epidemiology.
©Kristinn Ingvarsson

Greinina má nálgast á vef International Journal of Epidemiology 

Fréttatilkynning birtist á vef Háskóla Íslands þann 25. nóvember 2021: https://www.hi.is/frettir/andleg_heilsa_i_kofinu_virdist_sveiflast_med_smittolum