FÍLHRAUST Í GRUNNINN EN ÓVINNUFÆR LENGI EFTIR COVID-19

FÍLHRAUST Í GRUNNINN EN ÓVINNUFÆR LENGI EFTIR COVID-19

Fréttin birtist á ruv.is þann 22.11.2020

Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor Háskóla Íslands, er ein þeirra sem hafa veikst af kórónuveirunni í þriðju bylgju faraldursins. Hún segir að veikindin hafi tekið á bæði líkamlega og ekki síður á andlega heilsu. Umræðan um veiruna horfi ekki nægilega til þess hversu andlega erfið veikindin eru.

Steinunn segist vera almennt mjög hraust og virk og vel á sig komin. Hún var í toppformi áður en hún veiktist og lagði stund á fjallgöngur og jóga. Hún sé ein af þeim sem vilji hafa marga bolta á lofti og njóti þess að hafa mikið að gera. Hún smitaðist af veirunni í byrjun september þegar lítið samfélagslegt smit var í gangi. Hún birti reynslusögu sína á Facebook-síðu sinni um helgina.

Hún fékk lítil einkenni og hafði samband við heilsugæsluna. Þar á bæ var ekki talin ástæða fyrir hana að koma í sýnatöku.

„Svo nokkrum dögum seinna fæ ég þessa COVID-flensu sem er einhver kapituli út af fyrir sig, maður verður svo skringilega veikur. Þá hringi ég aftur og fæ að koma í sýnatöku og fæ svar samdægurs, og ég hélt að konan væri að ruglast. Ég eiginlega fann til með henni við að segja mér þetta. Það stóðst ekki að ég gæti verið með COVID,“

segir Steinunn.

Eins og tífaldir timburmenn

Stuttu seinna fjölgaði smitum mikið í samfélaginu sem var upphafið af þriðju bylgjunni. Veikindi Steinunnar stóðu yfir í sjö vikur. Bakslag kom í bataferlið. Hún fékk nokkrar sýkingar og lungnabólgu. Þegar hún taldi sig svo vera að jafna sig á þessu öllu þá tók ekki betra við.

„Það varð eins og algjört hrun. Það hækkaði hitinn aftur. Ég er búin að vera með hita samfellt í næstum tvo mánuði. Ég fékk ofboðslegan höfuðverk, og er búin að vera með hann í tvo og hálfan mánuð, bara þar til nýlega. Ég fékk þessi einkenni sýkingar í kinnholunum, mikinn þrýsting og óþægindi og svo þennan slappleika sem margir hafa lýst. Hann er sérkapituli, þar sem maður á hreinlega erfitt með að lyfta höfðinu af koddanum, maður er svo slappur. Þetta er eins og timburmenn dauðans,“

segir Steinunn og tekur fram að það sé mjög langt síðan hún hefur fundið fyrir timburmönnum.

Ólýsanlegur léttir

Hún segist enn lítið sem ekkert vera farin að vinna eftir veikindin, tveimur og hálfum mánuði eftir að hún veiktist. Fyrir um tíu dögum hafi hún loks hætt að finna fyrir óþægindum, og þá aðeins hluta dagsins. 

„Bara að losna við óþægindin og sársauka og ónot er ólýsanlegur léttir eftir að hafa liðið svona illa lengi. Ég er alveg ofboðslega fegin og glöð og mikill léttir að hluta dagsins, og stundum allan daginn líður mér alveg ágætlega. Þetta er svo furðulegt, ég get samt eiginlega ekki gert neitt, nú líður mér vel, ég er að tala við þig og allt í góðu. Svo eftir þetta samtal þá mun ég örugglega liggja fyrir fram á kvöld,“

segir Steinunn.

Tekur ekki síður á andlega en líkamlega

Þolið og úthaldið sé mjög takmarkað, líkamlega og andlega. Hún segir andlegan hluta veikindanna ekki síður erfiðan. Tilfinningalega áfallið hafi hellst yfir hana eftir að hún náði sér af veikindunum.  Hún fékk aðstoð við að vinna úr áfallinu sem hjálpaði henni mikið.

„Ég fékk martröð á hverri nóttu og fannst eins og heimurinn væri að farast og ég skildi ekki af hverju, og ég er sko með doktorsgráðu í sálfræði, ég hefði átt að átta mig á þessu. Svo ég hafði samband við sálfræðing sem hefur sérhæft sig í að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir alvarlegum veikindum og er í bataferli. Hún sagði mér að þetta væri bara tilfinningalegt. Nú væri tilfinningalega áfallið að koma eftir að ég væri komin úr lífshættu. Um leið og ég fattaði það þá leið mér svo miklu betur,“

segir Steinunn.

Hún segir að aðgengi fólks að sálfræðiþjónustu sé mikilvægt til að styðja við þá sem hafa veikst af veirunni. 

„Ég var svo heppin að þekkja sálfræðing sem gat hjálpað mér, og ég var svo heppin að komast að hjá henni og geta greitt fyrir það. Nú er búið að leyfa það að Sjúkratryggingar borgi hluta af kostnaði við sálfræðiþjónustu. Ég myndi segja að þetta sé tilvalið tækifæri fyrir stjórnvöld þá að fjármagna það því ég get lofað því að við sem höfum verið að fást við erfið Covid-veikindi, við þurfum smá stuðning við það. Það er ekki þannig að þegar þú ert komin með mótefni sértu á góðum stað,“

segir Steinunn.


Stöndum saman og tökum öll þátt á: www.lidanicovid.is

Vísindi eru almannavarnir! 

Embætti landlæknis

Háskóli Íslands