14 des Heilbrigðisstarfsfólk ekki í aukinni áhættu á þunglyndi í fyrstu bylgjunni
Fréttin birtist á kjarninn.is þann 14.12.2020
Fyrstu niðurstöður rannsóknar um líðan þjóðar í faraldri benda til þess að einstaklingar sem hafa veikst af COVID-19 eða eiga ættingja sem hafa greinst sýni merki um neikvæð áhrif á geðheilsu. Þetta á aftur á móti ekki við um heilbrigðisstarfsfólk.
„Góðu fréttirnar eru þær að heilbrigðisstarfsfólk var ekki í aukinni áhættu á þunglyndi né öðrum sálrænum einkennum í fyrstu bylgju faraldursins samanborið við jafnaldra í öðrum störfum.“
Þetta sagði Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, á blaðamannafundi almannavarna í morgun en þar kynnti hún frumniðurstöður rannsóknarinnar Líðan þjóðar á tímum COVID-19 sem vísindamenn Háskóla Íslands, Landspítala, Embættis landlæknis og sóttvarnarlæknis hrundu af stað á vordögum.
Hún sagði að þessi niðurstaða ætti bæði við heilbrigðisstarfsfólk sem vann í framlínunni og við aðra heilbrigðisþjónustu. Markmið rannsóknarinnar er að afla víðtækrar þekkingar á áhrifum faraldursins á líðan og lífsgæði landsmanna. Alls skráðu 23 þúsund manns sig til þátttöku í rannsókninni í vor og sumar, þar af um 400 einstaklingar sem greinst hafa með COVID-19. Vísindamennirnir hafa síðan unnið að því að greina gögnin og þá sérstaklega beint sjónum sínum að mögulegum áhættuhópum.AUGLÝSING
Einstaklingar sem hafa komist í snertingu við faraldurinn sýna merki um neikvæð áhrif á geðheilsu
Aftur á móti sýna niðurstöður að þeir einstaklingar sem veiktust alvarlega af COVID-19 séu í aukinni áhættu á einkennum þunglyndis og áfallastreitu í kjölfar veikindanna og svipaðar vísbendingar eigi við um þau sem hafa verið í sóttkví eða eiga ættingja sem hafa greinst með COVID-19.
Fyrstu niðurstöður benda enn fremur til þess að einstaklingar sem beinlínis hafa komist í snertingu við faraldurinn sýni merki um neikvæð áhrif á geðheilsu.
„Þær sýna að einstaklingar sem hafa greinst með COVID-19 eru eftir veikindi sín í aukinni áhættu á að sýna einkenni þunglyndis og áfallastreitu, sérstaklega þau sem urðu verulega veik af sjúkdómnum. Þá eru vísbendingar um neikvæð andleg einkenni meðal einstaklinga sem hafa verið í sóttkví eða eiga ættingja sem hafa greinst með COVID-19,“ segir Unnur Anna en hún fer fyrir rannsóknarhópnum.
Höfum hingað til komist hjá því að missa alveg tök á faraldrinum
Unnur segir að enn sem komið er séu ekki sterkar vísbendingar um víðtæk slík áhrif hérlendis líkt og dæmi sýna erlendis þar sem faraldurinn hefur farið úr böndunum. „Við höfum hingað til komist hjá því að missa alveg tök á faraldrinum og neikvæð áhrif á geðheilbrigði virðast því fyrst og fremst koma fram í áhættuhópum, til dæmis meðal þeirra sem verið hafa útsett fyrir smiti innan fjölskyldunnar. Þá eru einnig merki um að einstaklingar sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi í faraldrinum séu í aukinni hættu á vanlíðan.“
Unnur bendir á að mikilvægt sé að fylgja þessum fyrstu vísbendingum eftir, bæði mögulegum langtímaáhrifum í ofangreindum áhættuhópum en einnig að kanna víðtækari áhrif af samfélagslegum og efnahagslegum þrengingum vegna faraldursins á heilsufar landsmanna.
Þjóðin hafi glímt við nýjar bylgjur faraldursins nú í haust og því vilji aðstandendur rannsóknarinnar bjóða fleirum að taka þátt í henni og jafnframt fylgjast með mögulegum breytingum á heilsufari þeirra sem þegar eru þátttakendur í rannsókninni. „Við höfum hér einstakt tækifæri til að skilja betur hvaða þættir hjálpa og hverjir eru íþyngjandi í þessum erfiðu aðstæðum en slík þekking er óneitanlega mikilvæg fyrir okkur til framtíðar þegar við horfumst í augu við ný samfélagsleg áföll á borð við heimfaraldur COVID-19.“
Stöndum saman og tökum öll þátt á: www.lidanicovid.is
Vísindi eru almannavarnir!