24 apr Kanna líðan þjóðarinnar á tímum covid-19
Líðan þjóðar á tímum COVID-19 er rannsókn sem vísindamenn Háskóla Íslands ýta af stað í dag í samstarfi við Embætti landlæknis og sóttvarnalæknis. Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir mikilvægt að fá sem flesta til að taka þátt.
Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni og markmiðið er að afla sem mestrar þekkingar á áhrifum faraldursins á líðan og lífsgæði landsmanna. Rannsóknin hefur fengið samþykki Vísindasiðanefndar og Persónuverndar og eina og hálfa milljón króna í fjárstyrk frá ríkistjórninni. Öllum átján ára og eldri með rafræn skilríki er boðið að taka þátt í rannsókninni á vefsíðunni Líðan í COVID-19.
Arna Hauksdóttir, prófessor við læknadeild, er í forsvari fyrir rannsóknina. Hún segir að spurt sé út í COVID-tengda þætti; hvort fólk hafi greinst af sjúkdómnum eða verið í sóttkví, en einnig um andlega og líkamlega líðan og félagslegt umhverfi.
„Við viljum fá svör við þessum spurningum. Hvernig fólki líður á þessum skrítnu tímum og við viljum geta skoðað það út frá upplifun fólks á COVID. Hvort það hafi veikst eða farið í sóttkví.“
Arna segir mikilvægt að sem flestir taki þátt.
„Já, við viljum fá sem flesta til að taka þátt af því að þannig verður rannsóknin bæði stærri og áreiðanlegri og við getum svarað fleiri spurningum. Og getum líka skoðað heilsu fólks til lengri tíma og það er ekki síður mikilvægt í þessu samhengi að við getum fylgt eftir fólki á næstu misserum. Þannig að það er líka mikilvægt því við vitum ekki hvernig málin munu þróast. Þannig að það verður mjög mikilvægt hlutverk þessarar rannsóknar.“
Fréttin birtist á vef Ríkisútvarpsins www.ruv.is