15 sep Safna upplýsingum um líðan í Covid í fjórða sinn: „Við vonum að við þurfum ekki að halda áfram mikið lengur“
Fréttin birtist á vísir.is þann 14.09.2022
Verið er að safna gögnum í fjórða sinn sem hluta af rannsókninni Líðan þjóðar á tímum Covid en prófessor við Miðstöð í lýðheilsuvísindum segir mikilvægt að fylgja áhrifum faraldursins eftir þó greiningum hafi fækkað. Vonandi sé þetta síðasta gagnasöfnunin en niðurstöðurnar geti gagnast ef heimsfaraldur af sambærilegri stærðargráðu komi aftur upp.
Rannsóknin Líðan þjóðar á tímum Covid hófst vorið 2020 þar sem upplýsingum var aflað frá um 20 þúsund einstaklingum. Fjórða gagnasöfnunin sem hluti af rannsókninni er nú hafin en Arna Hauksdóttir, prófessor hjá Miðstöð í lýðheilsuvísindum, segir mikilvægt að fylgja fyrri niðurstöðum eftir.
„Það er ekki síst mikilvægt því við viljum fylgja eftir langvarandi einkennum eftir Covid, bæði líkamlegum og andlegum en erum líka að bæta við spurningum núna eins og hvað varðar bólusetningar fullorðinna og barna og fleira í þeim dúr,“ segir Arna.
Önnur lönd að sjá svipaðar niðurstöður
Líklegast verði nýjustu niðurstöðurnar birtar þegar líða fer að vori en niðurstöður úr fyrri gagnasöfnunum hafa þegar verið birtar.
„Við sjáum að því lengur eða því meira sem fólk var veikt því verr líður þeim með tímanum, þó að sjálfsögðu að þeim batni, en við erum að sjá einkenni alveg í nokkra mánuði eftir veikindin,“ segir Arna.
Hvað líkamleg einkenni varðar eru það helst vandamál í öndunarfærum, þreyta og verkir, en andleg einkenni eru til að mynda þunglyndi og kvíði og jafnvel einkenni áfallastreitu.
„Það verður mikilvæga verkefnið núna að fylgja þessu eftir þannig við sjáum hversu lengi þessi einkenni vara. Við erum í samstarfi við fimm önnur lönd sem að eru með sambærilega lista þannig það verður mjög áhugavert að geta séð og borið saman löndin og hvernig þessi einkenni þróast,“ segir Arna
Ísland sé í ákveðinni sérstöðu þar sem auðvelt sé að fylgja eftir ákveðnum einstaklingum og gætu upplýsingarnar nýst mörgum öðrum þjóðum, sem einnig eru að sjá þá tilhneigingu að langvarandi einkenni séu helst hjá þeim sem veikjast mikið.
Upplýsingarnar geti gagnast ef heimsfaraldur kemur aftur upp
Hversu mikið lengur rannsóknin muni standa yfir sé ómögulegt að segja á þessari stundu. Tæplega 55 prósent landsmanna hafa greinst með veiruna samkvæmt opinberum tölum en líklega er raunverulegur fjöldi meiri. Þó greiningum hafi fækkað verulega séu áhrif Covid enn til staðar.
„Við héldum að fyrsta gagnasöfnunin væri kannski sú eina en síðan hélt þetta bara áfram. Þannig við eiginlega vonum að við þurfum ekki að halda mikið lengur áfram en það verður bara að koma í ljós hvernig þessu fram vindur og ekki síst hvað við sjáum í gögnunum sem við erum að safna núna,“ segir Arna.
„Við vonum að þetta sé búið í bili en þetta sem við erum að gera núna getur ekki síst gagnast okkur ef þetta kemur upp aftur, heimsfaraldur af þessu stigi,“ segir hún enn fremur.
Stöndum saman og tökum öll þátt á: www.lidanicovid.is
Vísindi eru almannavarnir!